Um Knithilda
Eigandi, hönnuður og hugmyndasmiður Knithilda er ég, Hildur Hlín Jónsdóttir. Ég er lærður margmiðlunarhönnuður og hef unnið mikið við grafík af ýmsum toga sem og auglýsingagerð síðastliðin ár.
Ég hef alla mína ævi verið mikil handavinnukona og bæði saumað og prjónað mjög mikið í gegnum tíðina. Ég nýt þess í botn að hann flíkur og sjá loka útkomuna á einhverjum yndislegum mola, oftast syni mínum honum Fannari Mána. Ég hef ekki langt að sækja prjónaáhugan en móðir mín er Guðrún S. Magnúsdóttir sem hefur gefið út bækurnar Sokkaprjón, Vettlingaprjón, Húfuprjón, Treflaprjón, Jólaprjón og Teppaprjón. Þessa síðast nefndu gaf hún út ásamt systur sinni Þurý Magnúsdóttur. Mamma kenndi mér snemma að prjóna og ég man að ég fékk fyrsta byrjenda prjónasettið mitt í 6 ára afmælisgjöf. Þá kunni ég að fitja upp en með prjónasettinu lærði ég garðaprjón og var óstöðvandi eftir það - síprjónandi. Þegar ég var í kringum 12 ára var ég farin að prjóna eftir dönskum uppskrifarblöðum og prjónaði mestmegnis eftir dönskum uppskriftum í langan tíma. Þegar ég var svo 14 ára lagði ég í það verkefni að prjóna heimferðarsett sem ég ætlaði að geyma handa barninu mínu. Settið var fallega grænt á litinn og var peysan hneppt með munstri, já 14 ára var ég farin að prjóna munstur fram og til baka á réttunni!
En það var ekki fyrr en 2015 sem ég lagði í að prjóna eftir mínum eigin hugmyndum. Þá var ég ólétt af mínu fyrsta barni og má segja að prjónarnir hafi ekki farið í hvíld síðan og ég varla prjónað eftir öðrum uppskriftum en mínum eigin.
Ég hef gengið með hugmyndina af merkinu Knithilda í mörg ár, en aldrei þorað að taka á skarið fyrr en nú. Samkomubannið 2020 var nýtt í að fullvinna hugmyndina af síðunni sem og að klára fyrstu uppskriftirnar ásamt því að senda þær í prufuprjón. Ég á heilan helling af hugmyndum, bæði full unnum sem og margar á byrjunarstigi og hlakka ég mikið til að deila þeim með ykkur.